Samantekt um þingmál

Breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu

713. mál á 150. löggjafarþingi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Markmið

Að einfalda regluverk á sviði sjávarútvegs og fiskeldis.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagt er til að felld verði brott 22 lög sem eru úrelt eða óþörf. Lagt er til að leyfisskylda til dragnótaveiða verði felld niður og þess í stað verði fjallað um veiðarnar í reglugerð. Lagt er til að heimild ráðherra til að veita krókaaflamarksbátum leyfi til botndýraveiða með þeim veiðarfærum sem til slíkra veiða þarf og til hrognkelsaveiða í net falli brott en þess í stað verði fjallað um veiðarnar í reglugerð. Þá er lagt til að úrskurðarnefnd um ólögmætan sjávarafla verði lögð af. Lagt er til að úrelt bráðabirgðaákvæði verði felld niður. Einnig er lögð til einföldun á stjórnsýslu skyndilokana. Lagt er til að skylda Fiskistofu til að leggja til sérstakar afladagbækur verði afnumin. Auk þess er lagt til að dregið verði úr skýrsluskilum fiskeldisfyrirtækja, sem framleiða minna en 20 tonn árlega. Þá er lögð til einföldun á stjórnsýslumeðferð veiðitækja, sem notuð hafa verið erlendis.

Breytingar á lögum og tengd mál

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verða 22 lög felld brott og breytingar verða á 12 lögum.

Kostnaður og tekjur

Gert er ráð fyrir óverulegum áhrifum á fjárhag ríkissjóðs.

Afgreiðsla

Samþykkt með fáeinum breytingum, m.a. var hætt við að fella niður leyfisskyldu til dragnótaveiða.

Aðrar upplýsingar

Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis.


Síðast breytt 02.07.2020. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.